Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

Truflanir

Mikil fjölgun hefur orðið á truflunum í fjarskiptakerfum á undanförnum árum en slíkar truflanir geta haft alvarlegar afleiðingar, jafnvel gert hluta farneta ónothæf og haft áhrif á stóran hóp notenda. Ef um útbreidda truflun er að ræða getur hún haft áhrif á tugi eða hundruð notenda. Fjarskiptastofa vaktar slíkar truflanir, tekur við kvörtunum og grípur til aðgerða þegar þörf er á.

Nokkrar ástæður geta verið fyrir truflunum en þessar eru helstar:

  • Aukinn innflutningur almennings á tækjum sem keypt eru erlendis frá á netinu og uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til fjarskiptabúnaðar hér á landi og í raun á öllu EES-svæðinu. Slík tæki passa ekki inn í það tíðniskipulag sem notað er hérlendis og geta því valdið truflunum. Framleiðendur fjarskiptabúnaðar sem ætlaður er fyrir EES-svæðið bera ábyrgð á því að búnaðurinn uppfylli þær kröfur sem hér gilda og skulu merkja búnaðinn með CE-merkinu því til staðfestingar. Tækin sem um ræðir geta verið t.d. DECT símar frá Bandaríkjunum, farsímaendurvarpar og annar notendabúnaður sem ekki er viðurkenndur fyrir notkun í Evrópu. Ólöglegt er að flytja slík fjarskiptatæki inn og tollayfirvöld stöðva fjölda slíkra sendinga til landsins á hverju ári.
    Sjá skýrslu um markaðsúttekt á CE-merkingum fjarskiptatækja sem stofnunin lét gera sumarið 2016
  • Óæskileg áhrif frá nálægum sendi eða sendum á annan sendi, t.d. blandanir frá 2 sendum á þriðja sendinn, loftnet of nálægt hvoru öðru, yfirfylling á móttöku sendis o.fl.
  • Bilun í tækjabúnaði, t.d. bilun í sendi eða í köplum
  • Röng eða ólögleg notkun á tíðnum, t.d. þegar ekki er til staðar þekking á tíðnibandinu, sendar rangt stilltir, o.fl.
  • Aukið álag á tíðnisviðum sem eru í notkun, t.d. á háhraðatíðnisviðum (4G/LTE). Þetta kemur til af mikilli fjölgun tækja sem eru í notkun á hverjum tíma og um leið gríðarlegri aukningu á gagnamagni sem fer um sviðin.

 


Tíðnibreytar við örbylgjuloftnet valda farsímatruflunum

Mælingar Fjarskiptastofu benda til fjölgunar truflana á farsímasamböndum vegna tíðnibreyta sem tengdir eru  við örbylgjuloftnet fyrir sjónvarp.   Dæmi um slíkan tíðnibreyti sést á myndinni hér til hliðar. Um er að ræða lítið tæki inni í húsum sem tengt er við rafmagn og breytir tíðninni á merkinu sem loftnetið nemur og sendir það út á lægri tíðni.

Hætt var að nota örbylgjuloftnet fyrir dreifingu sjónvarps sumarið 2017, en loftnetin eru þó enn víða á húsum. Nú er hins vegar farið að nota þær tíðnir fyrir farsíma sem áður voru notaðar til að dreifa sjónvarpi með örbylgju, þ.e. 2500 - 2690 MHz. Bilanir í tíðnibreytunum valda því að þeir taka farsímasendingar á þessu tíðnisviði og senda þær út á lægri tíðni. Þetta veldur truflunum á farsímasambandi þeirra sem eru í viðkomandi húsi og nærliggjandi umhverfi.

Fjarskiptastofa hvetur fólk sem enn er með örbylgjuloftnet á húsum sínum til að athuga hvort tíðnibreytarnir eru í sambandi og aftengja þá ef svo er. Misjafnt er hvar í húsum þeir eru staðsettir, en þeir eru alltaf í sambandi við rafmagn og frá þeim liggur snúra í örbylgjuloftnetið. 

Kvartanir vegna truflana

Fjarskiptastofa tekur við kvörtunum vegna truflana á fjarskiptum. Stofnunin leitast við að finna orsakir þeirra eins fljótt og verða má og gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að bætt verði þar úr.

Algengustu truflanir tengjast sjónvarpsmóttöku og truflanir á talstöðvarásum.

Kvörtun vegna truflana - rafrænt eyðublað

 

Einnig er hægt að sækja textaskjal til útfyllingar, vista hjá sér og senda síðan með tölvupósti eða venjulegum pósti til Fjarskiptastofu:

Kvörtun vegna truflana

Nánari upplýsingar veitir Bjarni Sigurðsson, netfang: bjarni(hjá)pfs.is , sími: 822-1596.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?