Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

Notkun farsíma í reiki innan EES-svæðisins

Algengar spurningar og svör | Reikað sem heima innan EES-svæðisins

Eftir 15. júní 2017 þarf ekki að að greiða sérstök reikigjöld þegar ferðast er til annars lands á EES svæðinu. Allir núverandi viðskiptavinir sem hafa hefðbundinn aðgang að reiki færast nú á þessi nýju viðskiptakjör sem ná yfir gagnaflutning, símtöl og SMS skeyti. Þetta gildir eingöngu innan EES-svæðisins og ekki þegar ferðast er til annarra landa.

Sjá lista yfir lönd innan EES-svæðisins

Hvað kostar að hringja og taka á móti símtölum á ferðalögum?

Ef þú ferðast innan EES svæðisins eftir 15. júní 2017 eru engin aukagjöld fyrir að taka á móti símtölum. Þegar þú hringir heim frá landi innan svæðisins þá borgar þú það sama og þú myndir gera heima.

 

Gilda reikireglurnar um símtöl að heiman til vina eða ættingja erlendis?

Nei, að hringja símtöl að heiman í erlend númer fellur ekki undir reiki. Verð símtala frá heimalandi til útlanda, þ.e. útlandasímtöl, eru ekki undir reglum eða kvöðum. Kynntu þér gjaldskrár fyrir símtöl til útlanda á heimasíðu þess símafyrirtækis sem þú ert hjá.

Eins og verið hefur telst það innanlandssímtal að hringja í íslenskt númer, jafnvel þótt síminn sé staddur í útlöndum.

 

Eru einhverjar undantekningar eða skilyrði í „smáa letrinu“?

Meginreglan er sú að engin reikigjöld eru lögð á símanotkun sem á sér stað á venjulegum ferðalögum innan EES-svæðisins. Ef dvalið er langdvölum eða flust til annars EES-lands gilda þessar „reikað sem heima“ reglur ekki.

 

Eru einhver takmörk fyrir því hve mikið má hringja, senda SMS eða nota gagnamagn á heimaverðum samkvæmt „reikað sem heima“?

Hvað varðar símtöl og SMS skeyti gildir heimaverðskrá um alla notkun. Sama verðskrá gildir í reiki og gildir um notkun innanlands. Innifaldar mínútur og innifalin SMS eru þar meðtalin, einnig ef viðkomandi áskrift býður ótakmarkaðar mínútur og/eða SMS skeyti.

Hvað gagnamagn varðar þá gilda reglur um sanngjörn not þar sem símafyrirtækin hafa heimild til að setja mörk á það hve mikið gagnamagn má nota samkvæmt innanlandskjörum. Ef slík mörk eru sett er símafyrirtækinu skylt að tilkynna notendum sínum hver þau mörk eru.

Ákvæði reikireglnanna um „reikað sem heima“ setja skilyrði um lágmarksmörk sem eru rúm og eiga að duga fyrir alla venjulega netnotkun, tölvupóst, lestur vefsíðna og fréttaveitna. Ef farið er yfir þessi mörk er farsímafyrirtækinu heimilt að innheimta reikiálag sem nú nemur að hámarki 1.110,91 kr. fyrir hvert gígabæti af gagnamagni.

Hvað með löng ferðalög eða þá sem eru oft erlendis í vinnu?

Á meðan viðvera heima er meiri en erlendis yfir fjögurra mánaða tímabil gilda „reikað sem heima“ reglurnar um notkun í reiki.
Ef viðvera erlendis er meiri en heima fellur það ekki undir sanngjörn not á reikiþjónustu og farsímafyrirtækið gæti haft samband til að tilkynna að hér eftir verði lagt álag á notkun í reiki. Viðskiptavinur hefur þá 14 daga til að skýra notkun sína og af hverju ekki ætti að leggja á slíkt álag, t.d. ef sérstakar aðstæður hafa verið undanfarna mánuði sem ekki eru viðvarandi.
Það álag sem leggja má á reikinotkun umfram sanngjörn not vegna mikillar viðveru erlendis eru að hámarki 4,62 kr/mín vegna símtala sem eru hringd, 1,44 kr/SMS og 1.110,91 kr/GB vegna gagnanotkunar.
Í slíkum tilfellur getur það verið hagkvæmara að útvega þarlenda farsímaáskrift en að greiða reikiálagið.

Hvernig veit viðskiptavinur að hann njóti „reikað sem heima“ kjara?

Allar þjónustuleiðir sem nú bjóða reiki á almennri reikiverðskrá verða færðar á þau kjör sem „reikað sem heima“ reglurnar kveða á um.

Gilda reikireglurnar um símanotkun á skipum eða flugvélum innan EES?

Á meðan tengst er við farsímanet frá landi gilda þessar reikireglur, t.d. ef siglt er á ám, vötnum og við ströndina. Um leið og tengst er annars konar farsímanetum, t.d. þegar skemmtiferðaskip eða flugvélar tengjast farsímanetum um gervihnött gilda þessar reikireglur ekki.

Hvað með sérstakar reikiáskriftir?

Sé viðskiptavinur nú með önnur reikikjör en þau almennu skal farsímafyrirtæki hafa samband og fá staðfest að viðskiptavinur vilji halda þeim sérstöku kjörum. Staðfesti viðskiptavinur ekki að hann vilji halda þessum sérstöku reikikjörum skal færa þjónustuleið hans yfir í kjör samkvæmt „reikað sem heima“ reglunum.

Hvað með fyrirframgreiddar þjónustuleiðir?

Bjóði þjónustuleiðin þegar upp á reiki fellur hún undir „reikað sem heima“ reglurnar og kjörin. Þó hefur farsímafyrirtækið heimild til að setja lægri mörk á sanngjörn not gagnaflutnings á fyrirframgreiddar þjónustuleiðir. Farsímafyrirtækinu er skylt að tilkynna viðskiptavinum sínum hver mörkin um sanngjörn not eru á þjónustuleiðum þeirra.
Sé fyrirframgreidda þjónustuleiðin með þeim hætti að dregið sé jafnóðum af inneign fyrir alla notkun, þar með talið gagnanotkun, eru mörkin um sanngjörn not miðuð við þá inneign sem fyrir hendi er þegar reiki hefst.
Sé keyptur sérstakur gagnamagnspakki með ákveðinni inneign af gagnamagni eru mörkin um sanngjörn not sett sérstaklega á þann gagnamagnspakka.

Hvað með þjónustuleiðir sem innifela sérstaklega mikið gagnamagn eða jafnvel bjóða ótakmarkað gagnamagn í farsíma?

Farsímafyrirtækjunum er heimilt að setja slíkum þjónustuleiðum mörk um sanngjörn not í reiki. Reglur um „reikað sem heima“ setja lágmarksviðmið um þessi mörk sem taka mið af mánaðargjaldi viðkomandi áskriftarleiðar. Farsímafyrirtækjunum er alltaf heimilt að bjóða meira gagnamagn innan sanngjarnra nota en þetta reiknaða lágmark. Reiknireglan er að viðskiptavinum í fastri eftirágreiddri áskrift skal að lágmarki heimilt að nota tvöfalt það gagnamagn í gígabætum sem fæst þegar mánaðarverði áskriftar er deild á 1.110,91 kr. Sem þýðir að áskrift sem kostar 3000 kr skal að lágmarki geta notað 5,4 GB í reiki áður en heimilt er að leggja álag á notkun í reiki.
Ef þjónustuleiðin er fyrirframgreidd sem pakki er lágmarkið einfalt magn í GB, þ.e. 2,7 GB fyrir þjónustuleið sem kostar 3000 kr. á mánuði. Ef fyrirframgreidda þjónustuleiðin með þeim hætti að dregið er jafnóðum af inneign fyrir alla notkun, þar með talið gagnanotkun, eru mörkin um sanngjörn not miðuð við þá inneign sem fyrir hendi er þegar reiki hefst.

Hvað með þjónustuleiðir sem innifela ótakmörkuð símtöl og SMS?

Engin þök eru sett á sanngjörn not símtala og SMS skeyta. Viðskiptavinum í slíkum þjónustuleiðum er heimilt að hringja og senda SMS án nokkra takmarkana eða sérstaks álags á reikinotkun á meðan notkun er vegna eðlilegra ferðalaga.


Upplýsingarnar hér að ofan eiga ekki við þegar ferðast er til landa utan EES-svæðisins. Kynntu þér upplýsingar um farsímanotkun á ferðalögum utan EES-landanna hér

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?