Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

Notkun á póstnúmerum 

Póstnúmer hafa í raun þann eina tilgang samkvæmt lögum um póstþjónustu, að veita starfsfólki og flokkunarvélum upplýsingar um hvert eigi að senda viðkomandi póstsendingu þannig að henni verði dreift til rétts viðtakanda. Hlutverk póstnúmera er því aðeins að styðja við skilvirka dreifingu póstsendinga. 

Hér má sjá kort af afmörkun póstnúmera á landsvísu. Notið + eða - til að þysja inn eða út á kortinu eftir þörfum eða leitið eftir heimilisfangi/götuheiti.

Hins vegar hafa, fyrirtæki og yfirvöld, í gegnum tíðina notað  póstnúmer í öðrum tilgangi, t.d. til ýmiss konar flokkunar varðandi réttindi og skyldur borgaranna. Sérhver önnur notkun á póstnúmerum er á ábyrgð þess aðila sem notar póstnúmer til einhvers konar aðgreiningar í sinni þjónustu.  

Allar breytingar á póstnúmerum þurfa þannig að styðja við tilgang þeirra samkvæmt lögum um póstþjónustu, þ.e. að stuðla að hagkvæmri dreifingu póstsendinga.  

Póstnúmeraskrá

Hér er einnig er hægt að hlaða niður öllum gögnum sem liggja að baki póstnúmerakortsins á ZIP formi.

Almennt um póstnúmer

Í nýjum lögum um póstþjónustu nr. 98/2019, er umsýsla á póstnúmeraskrá færð frá Íslandspósti ohf. yfir til Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), sbr. 15. gr. laganna sem er svohljóðandi: 

 „Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar landfræðileg mörk póstnúmera og gefur út póstnúmeraskrá og landfræðilega þekju póstnúmera. Breytingar á póstnúmeraskrá skulu ekki gerðar nema að höfðu samráði við Þjóðskrá Íslands.“ 

Póstnúmeraskrá er skilgreind á eftirfarandi hátt í 19. töl. 4. gr. laga um póstþjónustu:  

„Númer, eða kerfi númera, sem notað er fyrst og fremst til landfræðilegrar afmörkunar, til að staðsetja viðtakanda og auðvelda dreifingu póstsendinga.“ 

Í greinargerð með 15. gr. segir eftirfarandi: 

„Með afnámi einkaréttar og opnun markaðar þykir rétt að tryggja heildstætt póstnúmerakerfi. Til þessa hefur Íslandspóstur ohf. haldið utan um póstnúmeraskrá. Skráin er m.a. notuð til að skilgreina hvar einstaklingar og fyrirtæki eru staðsett og er um leið hluti af flokkunarkerfi núverandi alþjónustuveitanda. Lagt er til að kveðið verði á um það í lögum um póstþjónustu að Póst- og fjarskiptastofnun skuli ákvarða landfræðileg mörk póstnúmera og halda póstnúmeraskrá. Eðlilegra þykir að slíkt vald sé í höndum opinbers aðila en ekki hjá einum markaðsaðila. Þótt aðeins sé vikið að því í ákvæðinu að Póst- og fjarskiptastofnun skuli hafa samráð við Þjóðskrá Íslands varðandi breytingar á póstnúmeraskrá kemur það í sjálfsögðu ekki í veg fyrir að haft sé samráð við hagsmunaaðila. Sjá einnig ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um Íslandspóstur ohf. skuli afhenda Póst- og fjarskiptastofnun upplýsingar um núverandi póstnúmeraskrá.“ 

Póstnúmerakerfið hefur á undanförnum áratugum þróast innan starfsemi ÍSP sem hluti af því heildarkerfi sem á að tryggja skilvirka dreifingu póstsendinga. Í þeirri póstnúmeraskránni sem og landfræðilegri þekju hafa ekki verið gerðar neinar breytingar frá þeirri póstnúmeraskrá sem og þekju sem ÍSP skilaði inn til PFS. 

Póstnúmer og pósthús

Póstnúmer er til að styðja við skilvirka dreifingu póstsendinga og að auka hraða og öryggi við flokkun og afgreiðslu póstsendinga til hagsbóta fyrir notendur. Kerfið samanstendur af þriggja stafa númeri, heimilisfangi og sveitarfélagi, sem saman mynda svokallað póstfang. Ekki er skilyrði að afgreiðslustaður (pósthús) þurfi að vera í öllum póstnúmerum. Jafnframt er ekki skilyrði að póstnúmer og landfræðileg þekja þess fylgi mörkum einstakra héraða, sveitarfélaga eða sýslna, sbr. t.d. póstnúmer í Reykjavík.

Það póstnúmerakerfi sem notað er í dag hefur verið notað frá árinu 1976 og hefur verið þróað af ÍSP og þar á undan Póst- og símamálastofnun. Kerfið tók í upphafi mið af gömlu svæðissímanúmerunum. Þannig var 93 svæðisnúmer fyrir Vesturland og byrjuðu póstnúmer á 300 Akranes og enduðu í 370 Búðardal, svo dæmi sé tekið.  

Heill og hálfur tugur vísar yfirleitt til þéttbýlis en tölurnar þar á milli til dreifbýlis eða pósthólfa. 

Í einhverjum tilvikum hafa síðan verið gerðar undantekningar frá þessum reglum. Í exel- skjalinu hér að ofan má sjá lista yfir öll póstnúmer á landinu eins og þau voru um áramótin 2019/2020. Jafnframt er birtur listi yfir hvernig aðgengi að póstþjónustu er háttað í viðkomandi póstnúmeri, af hálfu alþjónustuveitanda, þ.e. hvort um sé að ræða þjónustu í gegnum póstafgreiðslu, landpóst eða póstbíl.

Póstnúmer og hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar

Samkvæmt 15. gr. laga um póstþjónustu er það PFS sem ákvarðar landfræðileg mörk póstnúmera og gefur út póstnúmeraskrá. Samkvæmt skilgreiningu á póstnúmeri og ákvæði laganna er tilgangur póstnúmers eingöngu til landfræðilegrar afmörkunar, til að staðsetja viðtakanda og þar með auðvelda dreifingu á póstsendingum.  

Við breytingar á póstnúmerakerfinu er kveðið á um að PFS skuli hafa samráð við Þjóðskrá Íslands. Í greinargerð er jafnframt vikið að því að PFS sé heimilt að hafa samráð við aðra hagsmunaaðila.  

Að mati PFS er nauðsynlegt að ákveðinn stöðugleiki og fyrirsjáanleiki sé þegar um póstnúmer er að ræða og að þeim sé ekki breytt nema að vandlega athuguðu máli og í sátt við þá póstrekendur sem nota póstnúmer til að auðvelda flokkun og dreifingu póstsendinga.  

Einungis póstrekendur, sveitarfélög og opinberar stofnanir geta gert kröfu um að póstnúmerum og/eða landfræðilegri þekju verði breytt. Tillögum að breytingum skal fylgja rökstuðningur. Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á póstfangaskránni verða að öðru jöfnu miðaðar við áramót.