Hoppa yfir valmynd
Tungumál EN
Heim

Mannauðsstefna

Fjarskiptastofa hefur mótað eftirfarandi mannauðsstefnu. Markmið hennar er að samræma þarfir og markmið stofnunarinnar annars vegar og þarfir starfsmanna hins vegar. Forsenda góðs árangurs felst í mannauði og eru því gerðar ríkar kröfur til starfsmanna um faglega þekkingu og metnað til þess að ná framúrskarandi árangri í starfi.  

Meginmarkmið stefnunnar er að styðja og hvetja starfsmenn til þess að takast á við krefjandi verkefni þar sem fagmennska, frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð fá notið sín.  

Það er stefna Fjarskiptastofu: 

  • Að yfirmenn geri starfsmönnum ljóst hvers er ætlast til af þeim 
  • Að sjá til þess að vinnuálag sé hæfilegt og starfsmenn hafi rétta þekkingu og tæki til þess að sinna starfi sínu 


Lögð er áhersla að standa undir gildum stofnunarinnar 

Fagmennska: faglegur metnaður og áhersla á gæði, gegnsæi og stöðugar endurbætur.
Traust: hegðun okkar og breytni er sá grunnur sem traust annarra byggir á. 
Víðsýni: athafnir okkar einkennast af fagmennsku, lipurð og hjálpsemi. 

 
Leiðir til þess að mæla árangur eru: 

  • Viðeigandi spurningar í vinnustaðargreiningu sem framkvæmd er annað hvert ár
  •  Niðurstaða starfsmannasamtala 

Ráðningar, starfslýsingar og starfskjör 

Val á starfsmönnum skal byggjast á hlutlausum og faglegum vinnubrögðum þar sem tekið er tillit til reynslu, menntunar og hæfni sem fellur að viðkomandi verksviði.  

Almennar starfslýsingar skulu vera til fyrir öll störf og eru þær endurskoðaðar eftir því sem við á. 

Heimilt er að hvetja sérstaklega það kynið sem er í minnihluta til þess að sækja um laust starf ef jafna þarf kynjaskiptingu einhvers staðar í stofnuninni, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. 

Fjarskiptastofa er að móta sér jafnlaunastefnu og innleiða jafnlaunakerfi sem tryggir jöfn laun fyrir sambærileg störf, sjá STE-0721J-001 Jafnlaunastefna. 

Starfsmannasamtöl og frammistöðumat 

Starfsmannasamtal skal fara fram reglulega þar sem ætlunin er að styrkja og efla starfsmann í starfi og viðhalda góðum samskiptum og gagnkvæmum skilningi.  Stofnunin hefur sett verklagsreglu þar sem kveðið er nánar á um starfsmannasamtöl. 

Endur- og símenntun 

Fjarskiptastofa leggur áherslu á að starfsmenn viðhaldi og þrói þekkingu sína og faglega hæfni til aukinnar ánægju í starfi, meiri hagkvæmni í rekstri stofnunarinnar og betri þjónustu við viðskiptavini.  Lögð er áhersla á að starfsmenn taki frumkvæði og séu sjálfstæðir í starfi.   

Mikilvægt er að starfsmenn deili þekkingu sinni og séu reiðubúnir til að aðstoða hver annan í daglegum viðfangsefnum.  

Nánar skal kveðið á um framkvæmd stefnu í endur- og símenntun í verklagsreglu. 

Samskipti og starfsandi 

Áhersla er lögð á að allir stjórnendur og starfsmenn beri sameiginlega ábyrgð á góðum starfsanda, samstarfsvilja og eflingu liðsheildar.  

  • Við komum fram við hvert annað af tillitsemi, sanngirni og virðingu
  • Við vinnum saman og styðjum hvert annað í daglegum störfum okkar 

Hjá Fjarskiptastofu starfar virkt starfsmannafélag sem nýtur öflugs stuðnings stofnunarinnar.  Reglulega skulu haldnir starfsmannafundir þar sem upplýst er um helstu verkefni hverju sinni. 

Fjölskylduábyrgð og starf 

Fjarskiptastofa leggur áherslu á að búa starfsmönnum sínum aðstæður sem stuðla að jafnvægi vinnu og einkalífs. Konum og körlum er gert kleift að samræma vinnuskyldur sínar þar sem er leitast við að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna starfsmanna eftir því sem unnt er.  

Jafnréttismál 

Markmið Fjarskiptastofu er að allir starfsmenn njóti jafnréttis óháð kyni, aldri, uppruna eða trú og að hver starfsmaður verði metinn og virtur á grundvelli eigin kunnáttu og hæfileika. Konur og karlar skulu hafa jafna möguleika til starfa, ábyrgðar, launa, stöðuhækkana, endurmenntunar og starfsþjálfunar. 

Fjarskiptastofa  hefur mótað verklagsreglu um jafnréttismál með það að markmiði að tryggja ofangreint með skipulögðum hætti.  Forstjóri skipar jafnréttisfulltrúa sem vinnur í hans umboði. 

Jafnlaunastefna 

Markmið Fjarskiptastofa er að tryggja að allir starfsmenn stofnunarinnar njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur munur sé til staðar. PFS hefur mótað stefnu um jöfn laun fyrir sambærilega vinnu með það að markmiði að tryggja ofangreint með skipulögðum hætti.  

Eineltismál 

Einelti og kynferðisleg eða kynbundin áreitni er ekki liðin og er það í samræmi við reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. PFS hefur mótað verklagsreglu um viðbrögð við einelti og öðru ofbeldi. 

Heilbrigði og heilsurækt 

Vellíðan og heilbrigði eru höfð að leiðarljósi. Fjarskiptastofa hvetur starfsmenn til þátttöku í árlegum heilsuviðburðum eins og hjólað í vinnuna og lífshlaupinu. Vinnustaðurinn er reyklaus. 

Kveðið skal nánar á um útfærslu stuðnings Fjarskiptastofu til starfsmanna hvað varðar heilbrigði og heilsurækt í gátlista. 

Samgöngustefna 

Fjarskiptastofa vill leggja sitt af mörkum til að stuðla að betra og lífvænlegra umhverfi með því að hvetja starfsmenn til að draga úr bifreiðanotkun og nýta sér vistvænar samgöngur.  Starfsfólki stendur til boða að gera samgöngusamning þar sem starfsmenn ferðast til og frá vinnu í a.m.k. 80% tilvika með vistvænum hætti.  

Starfslok 

Starfslok geta orðið hvort sem er að frumkvæði starfsmanns eða Fjarskiptastofu. Við starfslok er ákvæðum gildandi kjarasamninga og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ávallt fylgt.  Fjarskiptastofa kemur til móts við ýmsar þarfir starfsmanna t.a.m. vegna aldurs, breytinga á persónulegum högum og starfsgetu. 

Mannauðsstefna Fjarskiptastofu er bindandi fyrir alla starfsmenn hennar

 

Síðast uppfært: Reykjavík 11. mars 2020

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofu

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Af hverju ekki?