Tímamælingar í farsímaþjónustu
Fast áskriftargjald
Fyrir fast mánaðarlegt áskriftargjald er farsímanúmerinu haldið opnu fyrir innhringingum annarra símnotenda. Ýmis tilboð eru í boði þar sem gegn misháu mánaðargjaldi fást fjölbreyttar útfærslur af innifalinni þjónustu. Þessi innifalda þjónusta er oft í formi innifalinna mínútna, SMS skeyta og gagnamagns. Innifalin notkun er stundum takmörkuð við ákveðin símanúmer (vini), símkerfi sem hringt er í (innan kerfis) og ákveðinn fjölda mínútna sem má nýta af slíkum mínútum og SMS skeytum. Innifalið gagnamagn er mælt í gígabætum (GB). Vert er að skoða sérstaklega hve mikils gagnamagns eða annarrar þjónustu er þörf svo ekki sé verið að greiða fyrir það sem ekki nýtist.
Upphafsgjald
Öll íslensku símafyrirtækin innheimta upphafsgjald sem tekið er í hvert sinn sem símtal hefst. Upphafsgjaldið er mismunandi eftir farsímafélögum og áskriftarleiðum.
Eftir því sem upphafsgjald er hærra verða styttri símtöl hlutfallslega dýrari en lengri símtöl enda vægi upphafsgjalds þyngra. Líklegt er að talsverður hluti símareiknings hjá dæmigerðum viðskiptavini sé vegna upphafsgjalds. Undanfarið hefur upphafsgjald verið hækkað hjá sumum símafyrirtækjum og nýjar áskriftarleiðir boðnar með upphafsgjaldi sem er annað en í almennri verðskrá.
Tímamælingar
Gæta þarf sérstaklega að því hvernig lengd símtalsins er gjaldfærð. Bæði er gjaldfært fyrir ákveðna lágmarkslengd og svo hverja tímaeiningu sem mæld er umfram lágmarkslengdina. Þetta er oft táknað í gjaldskrám og verðsamanburði með tveimur tölum með deilistriki á milli, t.d. 60/10. Fyrri talan táknar lágmarkslengd sem gjaldfært er fyrir í sekúndum, hin seinni það tímabil í sekúndum sem gjaldfært er fyrir fari símtal umfram lágmarkslengd.
Gjaldfært er fyrir hvert hafið tímabil þannig að ef símtal fellur inn í næsta tímabil er gjaldfært fyrir tímabilið allt. Þetta þýðir að rukkað er fyrir þær sekúndur tímabilsins sem standa út af þegar símtali lýkur. Grafið hér fyrir neðan sýnir mismunandi leiðir sem símafyrirtækin nota við tímamælingar um þessar mundir. Úr grafinu má lesa hve margar sekúndur eru gjaldfærðar fyrir hverja lengd símtals upp að tveimur mínútum fyrir leiðirnar 60/10 og 60/60.
Grafið sýnir lengd símtals (græni liturinn) og tímabil sem gjaldfært er fyrir (appelsínuguli og rauði liturinn). Neytendur greiða því fyrir ónotaðar sekúndur sem nemur appelsínugula og rauða litnum.
Af grafinu má sjá að stutt símtöl eru hlutfallslega óhagkvæm og að greitt er fyrir hlutfallslega margar ónotaðar sekúndur í símtölum sem vara stutt framyfir hverja heila mínútu. Þetta á sérstaklega við ef miðað er við tímamælinguna 60/60. Neytendur munu því að öllum líkindum greiða að meðaltali fyrir 30 ónotaðar sekúndur í stað 5 ónotaðra sekúndna áður, í símtölum sem eru lengri en 60 sekúndur. Neytendur eiga erfitt með að átta sig á þessu miðað við þær upplýsingar sem þeir hafa frá farsímafyrirtækjunum. Því má gera ráð fyrir að miðað við almennar verðskrár felist dulin verðhækkun í ofangreindum breytingum.

Á undanförnum árum hafa farsímafyrirtækin breytt tímamælingum nokkrum sinnum og alltaf til lengingar. Síminn var með mælinguna 20/1 fyrir mitt ár 2005 en breytti þá í 60/10. Nokkru síðar eða í desember 2005 breytti Vodafone, þá OgVodafone, úr 20/10 í 10kr/10sek sem síðar breyttist í 60/10. Nú í mars síðastliðnum breytti Síminn tímamælingum sínum í 60/60 og Vodafone mun einnig breyta úr 60/10 í 60/60 í maí. Tal hefur notað 60/60 og Nova notar 30/30.
Fyrirtækjum bjóðast þó áskriftarleiðir sem byggja á beinni sekúndumælingu þ.e. 1/1.
Að gefnum forsendum um meðalsímanotkun hefur breyting úr tímamælingu með 20/1 fyrirkomulagi yfir í fyrirkomulagið 60/60 áhrif til um það bil 30% hækkunar símareiknings miðað við almenna verðskrá og óbreytt upphafsgjald og mínútuverð. Hver áhrifin eru í raun er mismunandi eftir símanotkun hvers og eins. Ljóst er þó að þegar gjaldfært er fyrir eina mínútu að lágmarki eru símtöl styttri en 20 sek gerð um þrisvar sinnum dýrari en þau væru ef tímamælingin væri 20/1.Tímamælingar í sekúndum auðvelda verðsamanburð
Til að gera verðskrár gagnsærri og samanburðarhæfari er sekúndumæling gagnsæjasti mælikvarðinn. Með sekúndumælingu þar sem hver sekúnda er talin er neytendum gert auðveldara að meta raunkostnað símtala sinna því eingöngu er gjaldfært fyrir þann tíma sem símtöl vara og farsímafyrirtækin stilla mínútuverð sín í samræmi við það.
Réttur neytenda til að fá sundurliðað yfirlit yfir farsímanotkun sína
Rétt er að benda á að neytendur hafa rétt á því samkvæmt fjarskiptalögum að fá sundurliðað yfirlit yfir símtöl sín sér að kostnaðarlausu. Með því að kynna sér slík yfirlit geta neytendur betur áttað sig á notkunarmynstri sínu og þannig tekið afstöðu til þess hvaða áskriftarleið er hagkvæmust. Flest, ef ekki öll fyrirtæki sem selja farsímaþjónustu bjóða upp á þjónustusíður á heimasíðum sínum þar sem fylgjast má með notkun, ítarlega sundurliðaðri, mjög stuttu eftir að hún hefur átt sér stað.
Heildsala farsímafyrirtækja
Símafyrirtækin selja hvert öðru þjónustu þegar viðskiptavinur eins fyrirtækis hringir í viðskiptavin annars fyrirtækis. Sú þjónusta nefnist lúkning símtals, þ.e. fyrirtækið sem hringt er í lýkur símtalinu fyrir hitt. Farsímafyrirtækið sem á upphaf símtalsins rukkar viðskiptavininn sem hringir og greiðir hinu farsímafyrirtækinu fyrir lúkninguna á heildsöluverði. Öll slík þjónusta sem er seld milli farsímafyrirtækja með þessum hætti er mæld með sekúndumælingu. Þar eru engin lágmarkstímabil né gjaldfært fyrir hvert byrjað tímabil af fastri lengd.